fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Gull, gersemar og Sóltúnið

Ég fór í gær og hitti fyrsta Íslandsmeistarann í lyftingum, engan annan en Kára Magister Cat og fékk ég hjá honum sannkallaðar gull og gersemar!
Já Magister lét mér í té myndir af frumkvöðlum lyftinga hér á landi og einnig úrklippu bækur og gamlar ársskýrslur.
Þetta verður svo skannað inn og auðvitað birt hér á þessari síðu.
Ég stefni að því þegar ég er kominn með fleiri ársskýrslur að birta þær hér á netinu og geta þá menn rifjað upp fyrri afrek eða komist að því hvernig og hvað menn voru að lyfta hér á klakanum árum áður.
Ég þakka Kára kærlega fyrir þessar gersemar.

Stjórn Lyftingadeildar Ármanns ásamt Gísla Kristjánssyni, hittist niður í Sóltúni (aðstöðunni okkar) og rifum allt út, þrifum allan salinn og máluðum hann.
Síðan var farið í að þrífa allan búnaðinn og var honum komið svo á sinn stað og ýmsir nýir hlutir búnir að bætast við og enn fleiri eiga eftir að bætast við á næstu dögum.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Æfing...

Þorgeir heltók á því á æfingu áðan. Hann snaraði 92,5 sem er bæting um 5 kíló frá hans besta. Svo tók hann 115 í jafnhendingu mjög öruggt. Hann fór í 117,5 og cleanaði það en náði ekki alveg að jarka því en það vantaði ekki mikið uppá. Mjög góður dagur hjá Þorgeiri og virðist hann vera í góðu lagi fyrir Íslandsmótið því þetta eru mun betri tölur en fóru upp hjá honum á Ármannsmótinu.

Gísli var niður frá og átti erfitt með að halda sig frá lóðunum en samkvæmt læknaráði á hann ekkert að taka á því í um viku enn.

Snorri Agnarsson er að batna mikið í jarkinu en það hefur verið að angra hann svolítið.

Steini Leifs er mjög öflugur og snaraði 105, cleanaði 130.

Svo er kominn nýr maður, Danni, á honum kann ég engin skil...sennilega vinur Gústafs Agnars eða eitthvað álíka, allavega vel kunnugur flestum lyftingamönnum þarna sýnist mér.

Ég fór svo bara heim með sárt ennið eftir smá vesen í öxlinni en ein ferð í apótekið á nú að laga það.

Jónsi.

laugardagur, febrúar 19, 2005

Smáþjóðaleikarnir 1987

Smáþjóðaleikarnir 1987 voru haldnir á Monaco og tóku tveir Íslenskir lyftingamenn þátt. Þá var búið að breyta fyrirkomulagi keppninar og var keppt í þyngdarflokkum en ekki stigakeppni eins og tveimur árum áður.
Lítið hefur verið skrifað um þeirra afrek en Haraldur Ólafsson hlaut silfurverðlaun í sínum þyngdarflokki og Birgir Þór Borgþórsson var fjórði í sínum flokki.

Ármann Dan

Allar upplýsingar hér fyrir ofan eru teknar úr bókinni, Íslendingar á Ólympíuleikum eftir Gísla Halldórsson, sem að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands gaf út árið 2003.

föstudagur, febrúar 18, 2005

Smáþjóðaleikar

Frá árinu 1985 hafa Smáþjóðaleikarnir verið haldnir og eru á tveggja ára fresti.
Aðeins hefur verið keppt í lyftingum tvisvar, fyrst 1985 í San Marínó og síðan í Mónakó 1987.
Aðeins einn keppandi frá Íslandi keppti á leikunum 1985 og var það Guðmundur Sigurðsson. Ekki var keppt í flokkum heldur í opinni keppni og stigin reiknuð eftir alþjóðlegri stigatöflu.
Flokkstjórinn Birgir Þór Borgþórsson lýsir þessari keppni svona:
"Hófst nú keppnin í snörun. Svo fór að Florinda náði ekki að lyfta byrjunarþyngd sinni og var þar með úr keppninni. Seggiaro sem var léttastur þeirra er stóðu í baráttunni um sigurinn lyfti 112,5 kg og hafði lokið sínum tilraunum er einvígið milli þeirra Quintus og Guðmundar hófst. Þeir völdu báðir 127,5 kg sem byrjunarþyngd og náðu báðir að lyfta henni. Þeim mistókst síðan báðum að lyfta 132,5 kg í annarri tilraun. Í þriðju og síðustu tilraun hafði Quintus þyngdina upp en Guðmundur ekki. Var nú á brattann að sækja fyrir Guðmund í jafnhendingunni, hann þyngri en Quintus og hafði lyft 5 kg minna. Í jafnhendingu lyfti Seggiaro mest 140 kg. Kom þá röðin að Quintus sem fékk dæmda ógilda fyrstu tilraun sína við 155 kg en hafði þyngdina í annarri. Það þýddi að Guðmundur varð að lyfta 15 kg meira eða 170 kg. Guðmundur byrjaði þó á 165 kg til að tryggja silfurverðlaun, fór sú þyngd upp og Seggiaro frá Mónakó þar með "niður" í þriðja sætið. Quintus reyndi því næst við 165 kg og tæki hann þá þyngd neyddi hann Guðmund upp í 180kg. Honum Mistókst og nægði Guðmundi því að taka 170 kg. Spennan í herbúðum okkar Íslendinga var nú orðin gífurleg. Guðmundur gekk yfirvegaður að stönginni og einbeitti sér um stund. Hann reif því næst stöngina upp á brjóst og tókst með nokkru erfiði að reisa sig upp og spyrnti síðan stönginni upp á beina arma, steig saman og stóð kyrr með stöngina tilskilinn tíma, þar með var gullið í höfn. Guðmundur Ólympíumeistari smáþjóða og fögnuður okkar mikill."

Ármann Dan

Allar upplýsingar hér fyrir ofan eru teknar úr bókinni, Íslendingar á Ólympíuleikum eftir Gísla Halldórsson, sem að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands gaf út árið 2003.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Ólympíuleikarnir í Moskvu 1980

Ólympíuleikarnir í Moskvu 1980 voru seinustu leikarnir sem Íslendingar sendu lyftingamenn til keppni.

Sjö lyftingamenn náðu lágmörkunum fyrir þessa leika en sökum fjárskorts voru aðeins þrír sendir.
Þegar til Moskvu var komið, veiktust allir lyftingamennirnir í maga og hafði það sín áhrif á árangur þeirra.
Þorsteinn Leifsson keppti í -82,5 kg flokki og snaraði 125 kg en gerði allar lyftur í jafnhendingu ógildar og var því úr leik.
Guðmundur Helgason keppti í -90 kg flokki og snaraði hann 135 kg og varð í 14. sæti. Í jafnhendingu lyfti hann 160 en mistókst tvisvar við 165 kg og lyfti því samanlagt 295 kg og endaði í 13. sæti. Guðmundur var vinsæll meðal áhorfenda og var klappað lof í lófa að lokinni keppninni.
Birgir Þór Borgþórsson keppti í -100 kg flokki og snaraði hann 147,5 kg og varð í 13. sæti. Í jafnhöttun lyfti Birgir 182,5 kg og varð í 11. sæti og lyfti samtals 330 kg og endaði í 12. sæti.

Ármann Dan
Allar upplýsingar hér fyrir ofan eru teknar úr bókinni, Íslendingar á Ólympíuleikum eftir Gísla Halldórsson, sem að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands gaf út árið 2003.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Íslandsmót í Ólympískum Lyftingum

Nú er það orðið staðfest af formanni LSÍ að Íslandsmót í Ólympískum Lyftingum verður haldið laugardaginn 23. apríl en staður og stund verður auglýst síðar.
Vonandi sjá sem flestir sér fært að koma og horfa á.

Ármann Dan

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Sænska Meistaramótið

Dagana 12 - 13 febrúar var Sænska meistaramótið haldið í Uppsölum.
Maður mótsins var án efa hinn 25 ára Jim Gyllenhammar í +105 kg flokki sem setti nýtt Svíþjóðarmet í snörun 170,5 kg.
Hann jafnhenti 205,0 kg, en á best 220 kg, samtals árangur hans á mótinu var 375,0 kg en hann á best þar 390 en Jim vó þó aðeins 119 kg.
Þjálfari Jim er enginn annar en Alexander Kurlovich en hann vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Seul 1988 og í Barcelona 1992 í +110kg flokki.
Þess má geta að Jim hefur sett sér þau markmið að vera fyrsti Svíinn til að brjóta 400 kg múrinn og stefnir hann á Ólympíuleikanna í Beijing árið 2008.
Úrslit mótsins er hægt að sjá hér.

Ármann

mánudagur, febrúar 14, 2005

Arnold Fitness Weekend

Nú styttist í Arnold Fitness Weekend og voru þær fréttir að berast að Kanada sendir 10 manna lið, 7 konur og 5 karla og einn af þeim er Norik Vardanian en faðir hans Yurik Vardanian verður þarna sem þjálfari en hann vann gull á Ólympíuleikunum 1980 með 400-kg samanlagt úr lyftunum sínum í 82.5-kg flokki. Norik sonur hans sem keppir á mótinu er gríðarlega efnilegur og hlakkar mönnum til að sjá hann lyfta.

Shane Hamman frá USA hefur boðað komu sína á mótið en hann keppti á Ólympíuleikunum 2000 og 2004 í Aþenu þar sem hann setti Ameríkumet í jafnhöttun 237.5 kg og samanlagður árangur 430 kg.

Frá Kína koma:
Shi Zhiyong - Gullverðlaunahafi á Ólympíuleikunum í Aþenu í 62 kg flokki og
Zhang Gouzheng - Gullverðlaunahafi á Ólympíuleikunum í Aþenu í 69 kg flokki.

Einnig verða þarna gamlar kempur eins og Ike Berger, þrefaldur Heimsmeistari og vann 3 Ólympíuverðlaun í Fjaðurvigt, 1956 vann hann gull og lyfti þar 352,5 kg, silfur í Róm 1960 með 362,6 kg og í Tókíó 1964 vann hann silfur með 382,5 kg.

Tommy Kono sem vann tvö Ólympíugull, fyrst 1952 í 67,5 kg. flokki í Helsinki í Finnlandi en síðan 1956 í 82.5 kg. flokki í Melbourne í Ástralíu. Tommy vann silfur á Ólympíuleikunum í Róm 1960 í 75 kg. Flokki. Tommy Kono varð Heimsmeistari samfellt á árunum 1953-1959 og setti sjö Ólympíumet á ferlinum.

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Aðalfundur Ármanns

Laugardaginn 12. febrúar var haldinn aðalfundur Lyftingadeildar Ármanns og voru þar rædd ýmis mál. Mjög dræm mæting skyggði þó á fundinn.

Á fundinum voru rædd fjárfestingarmál deildarinnar og teknar ákvarðanir þar af lútandi. Kosið var í stjórn og var fyrrverandi stjórnin kosin á ný með 100% atkvæðum.

Annars er það að frétta að Gísli Kristjánsson er að ná sér eftir að hafa gengist undir aðgerð nú á dögunum. Hann ætlar hins vegar að keppa á Íslandsmótinu og lofar góðum lyftum þar.

Jónsi.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Heimsmeistaramótið 2005

Nú er það staðfest að Heimsmeistaramótið í Ólympískum lyftingum verður haldið dagana 9-21 nóvember í Doha í Qatar.
En þau mót sem eru á næstunni eru: 33th European Union Weightlifting Championships sem er dagana 17-20 febrúar og Arnold Weightlifting Classic sem verður dagana 4-6 mars.
Vonandi að Euorsport sýni frá þessum atburðum.

Ármann Dan

mánudagur, febrúar 07, 2005

Ólympíuleikarnir í Montreal 1976

Á Ólympíuleikunum í Montreal keppti Guðmundur Sigurðsson og er talið að hann hafi unni eitt mesta afrek íslenskra lyftingamann á leikunum þegar hann náði 8. sæti í sínum flokki.
Tveir lyftingamenn náðu lágmörkum fyrir leikanna en það var hann Gústaf Agnarsson sem náði þeim ásamt Guðmundi en Gústaf meiddist síðan stuttu fyrir leikana og þurfti því miður að hætta við og var það miður því Gústaf var einn af 0kkar bestu lyftingamönnum.

Guðmundur Sigurðsson lenti í 8. sæti með 332,5 kg í samanlögðum árangri í jafnhöttun og snörun en þarna var búið að leggja pressuna niður.
Guðmundur náði 13. sæti í snörun með 145 kg og 187,5 kg í jafnhöttun sem færði honum 7. sæti og 8. sæti í heild sinni.

Guðmundur naut mikilla vinsælda á leikunum og fögnuðu áhorfendur honum í hvert sinn sem hann kom fram og reyndi við lyfturnar.
Guðmundur fékk góða dóma eftir leikana í einu virtasta og útbreiddasta lyftingatímariti heims, International Olympic Lifter.
Það var hinn virti íþróttafréttamaður Everill Taggart sem sagði að síðasta lyfta Guðmundar 187,5 kg, hafi verið besta afrek leikanna, hvort sem um var að ræða lyftingar eða eitthvað annað og skrifaði:
"Kraftaverk. Við vorum vitni að kraftaverki og áhorfendur ætluðu vart að trúa sínum eigin augum. Síðan brutust áköf fagnaðarlæti þeirra út. Guðmundur Sigurðsson vann ekki til gullverðlauna en vonlaust hefði verið að fagna honum innilegar þó að svo hefði farið."

Ármann Dan

Allar upplýsingar hér fyrir ofan eru teknar úr bókinni, Íslendingar á Ólympíuleikum eftir Gísla Halldórsson, sem að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands gaf út árið 2003.

laugardagur, febrúar 05, 2005

Lyftingaspjall

Við vorum að setja upp spjallrás og er linkur á hana hér til hliðar og vonumst við eftir því að þið látið í ykkur heyra.

Íslenskir Lyftingamenn á Ólympíuleikunum

Okkur datt í hug að rifja upp gamla tíma og byrjum á Íslenskum lyftingamönnum á Ólympíuleikunum.
Íslendingar hafa fjórum sinnum tekið þátt í Lyftingum á Ólympíuleikunum og hafa þar 5 lyftingamenn stigið á stokk og sumir oftar en einu sinni.
Hér fyrir neðan settum við inn úrslit okkar manna á tveimur fyrstu leikunum og setjum hin inn seinna.


Mexico City, Mexico 1968

Óskar Sigurpálsson 90 kg. flokkur
Lauk ekki keppni.

Munchen, Þýskaland 1972

Guðmundur Sigurðsson. Milliþungavigt-Þríþraut.
Snörun = 135,0 kg. 13. Sæti
Jafnhöttun = 177,5 kg. 11. Sæti
Pressa = 142,5 kg. 17. Sæti
Samtals = 455,0 kg. 13. Sæti

Óskar Sigurpálsson. Þungavigt-Þríþraut. Snörun 117,5 kg. 23.Sæti
Jafnhöttun 182,5 kg. 15.Sæti
Pressa 177,5 kg. 8.Sæti
Samtals 477,5 kg. 19.Sæti

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Fréttir

Mikill uppgangur er nú lyftingunum og nokkrir nýjir menn farnir að lyfta. Útlit er fyrir gott mót í Apríl. Einn þeirrra, Sigurbjörn, mætti á sína þriðju æfingu í gær og prófaði að snara og gerði sér lítið fyrir og power snaraði 65. Hann vissi ekki hvað snörun var áður en hann mætti þarna. Hann beygði 130 kg. í gær og er það nokkuð gott fyrir mann sem hefur ekki mikið verið að snerta á lóðunum og þetta voru djúpar og góðar beygjur. Steini Leifs kíkti við og leist vel á kappann, sem mun vera einsdæmi...

Þorgeir stendur í miklum bætingum og heyrst hefur að bróðir hans sé að lyfta í laumi á einhverjum hádegisæfingum. Báðir verða þeir á mótinu. Þorgeir talaði um 85 kg. leynivopn sem á að keppa gegn mér á mótinu, sem verður að teljast mjög jákvætt.

Við erum að sprengja utan af okkur húsnæðið þarna niður í Sóltúni og bíða menn með mikilli eftirvæntingu eftir nýja húsnæðinu í Laugardalnum.

Kveðja,
Jónsi.