laugardagur, apríl 21, 2007

Íslandsmeistaramót í Lyftingum 2007.

Íslandsmeistaramótið í Lyftingum 2007 fór fram í Ármannsheimilinu í dag og voru 7 keppendur mættir til leiks. Einn lyfti í -17 ára flokki en tveir í -20 ára flokki og fjórir í karlaflokki. Keppendur stóðu sig mjög vel og sérstaklega þeir yngstu og verður gamann að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Kristófer Andri Angarsson úr Ármanni keppti í 69kg flokki -20 ára og lyfti hann 50kg í sinni fyrstu tilraun, 55 í annari og 58 í þeirri þriðju í snörun. Í jafnhöttun lyfti hann 70kg í fyrstu tilraun, 77 í annari og svo reyndi hann við nýtt íslandsmet í sinni þriðju tilraun, 81 kg en fékk lyftuna ekki dæmda gilda. Samanlagt lyfti hann 135 kg og var þetta mjög góður árangur hjá honum og var hann að keppa á sínu fyrsta móti.

Agnar Snorrason úr Ármanni keppti í 77 kg flokki í -17 ára og setti hann þar íslandsmet í snörun í sinni annari lyftu og var það 70 kg. Í þriðju tilraun bætti hann síðan metið enn meira þegar hann snaraði 76 kg og var það jafnframt Íslandsmet í 77 kg flokki í -20 ára. Agnar var aldeilis ekki hættur og byrjaði á nýju Íslandsmeti í jafnhöttun þegar hann lyfti 90 kg og var hann þá einnig búinn að setja nýtt Íslandsmet í samanlögðu. Agnar hélt áfram að setja met í -17 ára flokki og lyfti í sinni annari tilraun 95kg og bætti þar með líka metið í samanlögðu og svo endaði hann mótið með því að jafnhatta 100 kg og fékk því 176 kg í samanlögðu og að sjálfsögðu bæði ný met. Hreint stórkostlegur árangur hjá þessum unga dreng á sínu fyrsta móti.

Magnús Valgeir Gíslason úr Breiðablik keppti í 77 kg flokki -20 ára og lyfti hann 55kg í fyrstu tilraun, 60kg í annari og 65 kg í í þriðju tilraun í snörun. Í jafnhöttun lyfti hann 70kg í fyrstu tilraun, 80 í annari og 90 í þeirri þriðju. Samanlagt 155 kg og var hann einnig að keppa á sínu fyrsta móti.

Tveir keppendur voru í 85 kg flokki og voru það Ármenningarnir Jón Pétur Jóelsson og Sigurður Einarsson. Sigurður sigraði flokkinn og lyfti hann 90kg í fyrstu tilraun, 95 í annari en mistókst við 100kg í þriðju tilraun sinni í snörun. Í jafnhöttun lyfti hann 120kg í fyrstu tilraun, 125 kg í annari og 130 kg í þriðju tilraun. Samanlagt lyfti hann 225 kg.

Jón Pétur var í öðru sæti og lyfti hann 85kg í fyrstu tilraun, en mistókst í annari tilraun með 90kg og einnig í þriðju tilraun sinni með 92kg. Í jafnhöttun byrjaði hann á 115kg en mistókst með 122 í annari og þriðju tilraun. Samanlagt lyfti hann 200 kg.

Í 94 kg flokki var mættur til leiks gamla brýnið Guðmundur Sigurðsson úr Ármanni og lyfti hann 90 kg í sinni fyrstu tilraun, 95kg í annari en mistókst í þriðju tilraun með 97kg. Í jafnhöttun lyfti hann 115kg í sinni fyrstu tilraun, 125 í annari en mistókst í þeirri þriðju með 130. Samanlagt lyfti hann 220 kg.

Í 105 kg flokki lyfti Ármenningurinn Snorri Agnarsson, faðir Agnars sem keppti í 77 kg flokki. Snorri lyfti 75kg í sinni fyrstu tilraun, í annari 80kg en mistókst í þeirri þriðju með 85kg. Í jafnhöttun lyfti hann 105kg í fyrstu tilraun og 110 í annari en hætti þá keppni. Samanlagt lyfti hann 190 kg.

Þetta var mjög gott mót og gaman var að sjá að keppendur voru á öllum aldri, frá 17 ára og upp í 61 árs.

Lyftingasambandið þakkar bæði keppendum og áhorfendum fyrir gott mót.

föstudagur, apríl 20, 2007

Íslandsmót í Lyftingum

Íslandsmótið í Lyftingum 2007 fer fram í kjallara Ármanns/Þróttara heimilinu laugardaginn 21. apríl næstkomandi.

Mótið hefst kl. 13:00

kv.
Stjórn L.S.Í

miðvikudagur, apríl 18, 2007

Thor Cup

Nú styttist óðfluga í Thor Cup sem verður haldið í Vetrargarðinum í Smáralind Laugardaginn 19. Maí næstkomandi.

Þetta mót er með öðruvísi sniði en vanalega og var gert í fyrsta skiptið í fyrra og tókst vel og gerir keppnina því hraðari og meira spennandi.

Það er Mita Overvliet sem heldur þetta mót og bauð hún fimm þjóðum að taka þátt en það eru: Ísland, Noregur, Danmörk, Svíþjóð og Finnland.
Þetta mót var einnig haldið í fyrra en það er með stærra sniði nú því að á þessu móti geta menn náð Ólympíulágmörkum fyrir Ólympíuleikanna í Bejing á næsta ári.

Það sem gerir þetta mót svo sérstakt er það að í hverju liði eru 3 keppendur og má samanlögð líkamsþyngd þeirra ekki vera meiri en 280 kg.
Þetta gerir það að verkum að við fáum að sjá einn "léttvigtamann", einn "millivigtamann" og einn "þungavigtamann" frá hverju landi.
Reglurnar eru þannig að fimm léttustu keppendurnir byrja á snörun og síðan fimm "millivigtarmennirnir" og seinast "þungavigtarmennirnir" og þegar þessu er lokið að þá hefst jafnhöttunin með sömu aðferð.
Efstu þrjár snörurnar hjá hverju liði eru teknar saman og einnig jafnhattannirnar og það lið sem hefur mestu samanlögðu þyngdina vinnur.

Rúv verður með beina útsendingu frá mótinu og því geta þeir sem ekki hafa möguleika á að koma í Smáralindina, horft á þetta í beinni.

Ég hvet sem flest til að mæta og horfa á þetta stórskemmtilega mót.

föstudagur, apríl 13, 2007

Thor cup og aðrar fréttir

Noregur er búinn að birta hverjir munu keppa fyrir þeirra hönd á Thor Cup sem verður haldið hér á landi þann 19. maí næstkomandi.

Það verða þeir Jarleif Amdal, Jostein Frøyd og Per Hordnes sem stíga á stokk og eru hér tölur frá þeim frá Noregsmótinu sem var haldið þann 10. mars 2007.

Jarleif Amdal(84kg) 85 kg flokkur
121kg-150kg-271kg

Jostein Frøyd (96kg) -105kg flokkur
132kg-166kg-298kg

Per Hordnes(93kg) 94 kg flokkur
140kg-170kg-310kg

Samtals er þyngd þeirra 273 kg og eru þeir 7kg undir hámarkinu.
Samtals lyftri þyngd þeirra gerir þetta 879kg en í fyrra lyftu þeir 902kg samanlagt og er það 23kg undir árangri þeirra í fyrra.

Þess má geta að gamla brýnið Stian Grimseth keppti á þessu móti, eftir langan tíma og eru þetta tölurnar hans: 157kg-175kg-332kg og hann var hann stigahæðsti maður mótsins.

miðvikudagur, apríl 04, 2007

Þrenning

Já það eru nokkrar fréttir sem við höfum að færa ykkur og best er að byrja að segja frá því að Íslandsmeistaramótið í lyftingum verður haldið laugardaginn 21. apríl í lyftingasal Ármenninga. Nánari tímasetning verður auglýst síðar.

Í erlendum fréttum er helst það að frétta að Georgía ætlar ekki að senda lið á evrópumótið sem hefst þann 14. apríl í Frakklandi. Ástæðan fyrir þessu að sögn Grikurovi landsliðsþjálfara þeirra Georgíumanna er sú að þeir hafa aðeins fimm lyftingamenn til að keppa og fjórir þeirra eiga við smá meiðsli að stríða. Arsen Kasabiev þeirra helsta stjarna er að jafna sig af meiðslum og ætlar hann að stefna á að keppa á HM seinna í ár.

Ilya Ilin (Kazakhstan) gullverðlaunahafi á HM í fyrra í 94 kg flokki mun ekki keppa á Junior né Senior Asíuleikunum í ár þar sem hann er að einbeita sér að HM seinna í ár og er það gert vegna þess að HM er sá viðburður þar sem að hann stefnir á að ná Ólympíulágmörkum fyrir Bejing á næsta ári.