fimmtudagur, janúar 27, 2005

Nýjar myndir og gamlar í bland

Við erum búnir að setja inn nokkrar myndir af Copenhagen Cup sem fór fram um síðustu helgi og svo settum við inn fullt af myndum af gömlum íslenskum lyftingamönnum en Snorri Agnarsson lét okkur fá tvær úrklippumöppur sem er í eigu foreldra þeirra Snorra og Gústafs. Við skönnuðum inn hátt í fimmtíu myndir og vonum að þið njótið vel.

Við settum inn myndband af bestu lyftum Gísla á Copenhagen Cup og það er hér til hliðar í linkunum en best er að opna þetta í Quicktime.

sunnudagur, janúar 23, 2005

Gísli Kristjánsson stóð sig vel á Copenhagen Cup

Á opna Kaupmannahafnarmótinu sem var nú um helgina, keppti lyftingamaðurinn og Ármenningurinn Gísli Kristjánsson og lenti hann í öðru sæti í stigakeppni. Gísli Snaraði 155 kg sem er nýtt Íslandsmet í +105 kg flokki og Jafnhenti 182,5 kg, samtals 337,5 kg.
Það var Daninn Jesper Jørgensen sem sigraði og snaraði hann 143 kg og jafnhattaði 172,5 kg, samtals 315,5 kg.
Snörunin, jafnhöttunin og samanlagður árangur hans var allt Danmerkurmet í 85 kg flokki.

Þess má geta að árangur Gísla í snörun var yfir Norðurlanda-, Evrópu- og Heimsmeti í hans aldursflokki, jafnhöttunin var yfir Norðurlanda og Evrópumeti og samanlagður árangur hans var yfir Norðurlanda- Evrópu- og Heimsmeti en hann fær það ekki gilt þar sem þetta var ekki öldungamót.

Gísli hlaut 357,0 stig en Jesper sem vóg 83,4 kg hlaut 370,9 stig.

laugardagur, janúar 22, 2005

Copenhagen Cup

Jaeja fyrsti dagurinn buinn og unglingarnir og stelpurnar kepptu i dag. Plamen Boev fra Bulgariu sigradi i Sinclair keppni dagsins. Hann er 18 ara gamall og vigtar 85 kg. Hann jafnhenti 175 og snaradi 137.5. Vid gerdumst ekki svo fraegir ad na urslitum kvenna i dag.

Gisli er brattur og hefur verid kvaddur i svefn, tar sem hann a ad keppa i fyrramalid. Fleiri frettir af tvi fljotlega.

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Íranin hrikalegi, Hossein Rezazadeh er í sjöunda sæti á lista AIPS.

Heims- og Ólympíumethafinn í +105 kg flokki ólympískra lyftinga, Hossein Rezazadeh frá Íran, stóð í sjöunda sæti á lista Association International de la Presse Sportive (AIPS) sem kom út á laugardag.
AIPS stóð fyrir könnun hjá 143 löndum sem eru meðlimir AIPS og þeirra eigin sérfræðinga um að velja bestu íþróttamenn og konur síðasta árs.
Hinn 26 ára gamli Rezazadeh sem var í 12 sæti í þessari könnun 2003, varð Ólympíumeistari á síðasta ári með 210 kg í snörun og heimsmet í jafnhöttun 263,5 kg sem var bætíng á hans eigin heimsmeti um 0,5 kg.
Og þessi stórglæsilegi árangur kom honum upp í sjöunda sæti fyrir árið 2004.

Ármann Dan

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Íranskir Lyftingamenn sniðganga æfingabúðir.

Nokkrir af bestu lyftingamönnum Írans, ákváðu á sunnudag að sniðganga æfingabúðir landsliðsins sem að jórdanski þjálfarinn Yordan Georgi Ivanov stendur fyrir.
Sjö af 23 landsliðsmönnum Írana ákváðu þetta í mótmælaskyni við því að búið væri að reka íranska þjálfarann Bahman Zare. Þessir sjö lyftingamenn voru Hossein Rezazadeh, Mehdi Panzovan, Mohammad-Ali Falahati-Nejad,Shahin Nassirinia, Mohsen Biranvand, Asghar Ebrahimi, og Hossein Tavakkoli .Í viðtali á dögunum sagði Falahati-Nejads (77 kg flokki) að íranskir lyftingamenn skulduðu innlendum þjálfurum mikið en landssambandið væri að hunsa þessa ómetanlegu þjónustu sem að þeir hafa veitt. Eftir að sambandið tók þessa ákvörðun þá hefðu lyftingamennirnir tekið þessa ákvörðun um að mæta ekki í æfingabúðirnar, honum til varnar. Þó að íranska lyftingasambandið hafi seinna sent Abdolreza Assadi, sem er innlendur þjálfari, í æfingabúðirnar, þá hefur það ekki samfært lyftingamennina um að taka þátt í æfingabúðunum.

Ármann Dan

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Æfing

Ég er nýkominn af æfingu og var nú dálítið þröngt á þingi.
Við vorum 8 á æfingu og þurfti að pússla mikið svo að ekki illa færi.
Ég, Snorri Agnars, Agnar sonur hans, Gísli, Steini Leifs, Þorgeir, Björn og einn nýr sem er frændi hans Snorra vorum á æfingunni og var vel tekið á.
Video voru tekin af lyftum og farið svo yfir til að bæta það sem bæta mætti og fékk maður marga góða punkta.
Einnig voru sagðar sögur af gömlum lyftingahetjum og hafði ég gaman af.

Ármann Dan

Myndir af gömlum kempum

Nú er ég búinn að setja inn nýtt myndaalbúm inn á mynda linkinn hér til hliðar og nefnist það "Gamlar Kempur" og ætlum við að setja þar inn myndir af okkar frægustu lyftingamönnum. Sá sem er fyrstur til að verða þess heiðurs njótandi er enginn annar en bæklunarlæknirinn Ágúst Kárason.
Við erum að vinna í að skanna inn myndir og endilega ef menn telja sig eiga góðar myndir þá endilega látið okkur vita.

Ármann Dan

Opna Ármannsmótið

Já nú er ég búinn að setja inn myndband af Opna Ármannsmótinu og er linkur hér til hliðar þar sem þið getið "Download´að" því (innlent).

Ármann Dan

Akakios Kakhiashvili og Valerios Leonidas hjálpa fórnarlömbum.

Grísku Lyftingamennirnir Akakios Kakhiashvili , þrefaldur Ólympíumeistari og Valerios Leonidas , silfurhafi á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996 eru meðal þeirra íþróttamanna sem hafa safnað fé til hjálpar fórnarlamba flóðanna miklu í Asíu. Þeir gáfu persónulega hluti sem voru boðnir upp og rann ágóðinn til fórnarlamba flóðanna.

mánudagur, janúar 17, 2005

Æfingablogg

Ég fór á æfingu í dag og átti von á að vera einn þar sem ég var mættur snemma en þegar æfingin var hálfnuð mætti Bubbi (Guðbrandur) á sína fyrstu æfingu eftir mót. Hann var að ná sér af einhverri kvefpest en snaraði þó vel. Það má greinilega sjá á stíl hans Bubba að þar er vel skólaður lyftingamaður á ferð, mjög flott snörun hjá honum. Hann hefði þó mátt mæta aðeins fyrr, því það er ómetanlegt að fá góð komment á lyfturnar hjá manni frá þeim sem vita meira um þetta, svo maður endurtaki ekki alltaf sömu mistökin. Ég var hinsvegar búinn að snara og jafnhenda þennan daginn þannig að ég átti bara tog og beygjur eftir. Bubbi sagðist hafa í huga að mæta meira í náinni framtíð þar sem dóttir hans er byrjuð að æfa fimleika, að sjálfsögðu hjá Ármanni, fínt að mæta meðan sú stutta æfir hinumegin.

Annars er að frétta að Steini Leifs átti góða æfingu um daginn, snaraði 110. Ég veit til þess að það er nóg pláss fyrir bætingar á þeim bæ. Hann tók 190 í beygjunum um daginn líka.

Þorgeir hefur gefið það upp að hann ætli að taka nýja árið með trukki og hefur undir höndum lyftingaprógram frá Steina sem verður nýtt til hins ítrasta. Ég hef sjálfur verið að æfa undir tilsögn Steina og hefur það reynst mér vel.

Stefnt er á að halda mót í kringum páskana en ekki er komin endanleg dagsetning á það en við munum gefa upp dagsetningu eins fljótt og auðið er.

Við höfum fengið jákvæð viðbrögð við þessum gjörningi okkar að skrifa smá um lyftingarnar en okkur var bent á góða mynd af Ágústi Kárasyni en Ármann Dan er að athuga hvort leyfi fáist til að sýna hana á myndasíðu okkar. Svo fengum við viðbrögð alla leið frá Danaveldi og er það gleðiefni.

-Jónsi-

Yfirlýsing frá Alþjóða Lyftingasambandinu (IWF).

Þessi Yfirlýsing frá Alþjóða Lyftingasambandinu (IWF) kom um daginn.

"Gestir á heimasíðunni okkar hljóta að hafa tekið eftir viku langri truflun á vefsíðu okkar http://www.iwf.net/ um áramótin 2004 og 2005. Okkur finnst við skulda ykkur útskýringu á þessari truflun sem greinilega var til óþæginda fyrir áhugamenn um Lyftingar og þá sem vildu fara á síðuna okkar. Okkar árlega val á "Lyftingamanni ársins" (2004) sem fór fram á síðunni okkar, laðaði að Íranska aðdáendur Hossein Reza Zadeh og kusu þeir í hundraðatali, jafnvel í þúsundartali. Í byrjun voru þetta góðar fréttir, við vorum ánægðir með svona mikinn áhuga á kosningunni okkar.
Hinsvegar þá voru 99% af atkvæðunum ógild, og byrjuðu þau að hefja innreið sína til IWF í faxi og tölvupósti. Til að gera hlutina enn verri þá hófu "hakkarar" að "taka þátt" í þessu og "blokkuðu" heimasíðuna með því að senda falska atkvæðaseðla í tugþúsundartali í tölvupósti daglega ásamt fjölda vírusa.
Við þessa árásir varð IWF að loka heimasíðunni tímabundið og þurfti að hreinsa og hanna upp á nýtt "serverinn" og pósthólf. Þetta kostaði mikið erfiði, peninga og auðvitað tíma."

Þess má geta að vegna þessara atburða er ekki enn búið að velja Lyftingamann Ársins 2004 hjá IWF.

föstudagur, janúar 14, 2005

Ármannsdagurinn

12. Júní á síðasta ári var haldinn hinn árlegi Ármannsdagur og létum við lyftingamenn sjá okkur þar. Aðeins voru þó þrír menn þar sem höfðu einhverja reynslu af lyftingum, þeir Guðmundur Sigurðsson, Snorri Agnarsson og Örvar bakari. Við hinir fylgdum með og reyndum að sýna það sem við höfðum lært á þeim þremur mánuðum sem við höfðum stundað þetta. Við erum búnir að setja inn myndir af þessum degi fyrir þá sem vilja virða þetta fyrir sér.

Efniviður

Haft var samband við Snorra Agnarsson og hann spurður hvort hann ætti ekki einhverjar gamlar myndir af lyftingamönnum. Hann kvað svo vera og ætlaði að ganga í það mál að hafa uppá þeim. Ef allt gengur upp munum við skanna þessar myndir inn og hafa hér til hliðar.

Við höfum ekki fundið mikið af gömlum ársskýrslum en höfum þó komið um fjórum á rafrænt form og verða þær einnig birtar hér til hliðar.

Ef þú hefur eitthvað sem þú heldur að ætti erindi við þennan vef, þá viljum við endilega heyra frá þér...

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Shane Hamman

Þjálfari Shane Hamman, hinn kunni lyftingamaður Dragomir Cioroslan, hefur hvatt kappan til að leggja skónna ekki alveg strax á hilluna og keppa á heimsmeistaramótinu 2005. Hamman ku hafa tekið vel í það.

Hamman lenti í 7. sæti á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 og snaraði þar 192,5 og jafnhenti 237,5, samanlagt 430. Þessi kappi er þéttur á velli og er einn fárra sem hefur tekist að taka skrefið frá kraftlyftingum í lyftingar með góðum árangri.

Gísli Kristjáns hitti Hamman á heimsmeistaramótinu 2002 í Póllandi og sagði Hamman varla ná sér uppað öxlum, sem þýðir að Hamman er nánast jafnbreiður á alla kanta....

Hér má sjá Hamman:

Snara 190 kg.

Jafnhenda 220 kg.


miðvikudagur, janúar 12, 2005

Flott lyfta hjá Andrei Chemerkin, jafnhending uppá 260 kg....Hér.

...Svo einn frekar efnilegur, 14 ára 50 kg. gutti að taka 110 í jafnhendingu....Hér.

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Jónsi í góðu formi.

Já það var vel tekið á því á æfingunni í dag og er þar helst að nefna að hann Jónsi tók "Personal Best" 80 kg í Snörun og 110 kg í Jafnhöttun og er þetta bæting um 2,5 kg í snörun og 5 kg í Jafnhöttun frá því á Ármannsmótinu þann 18. des. Þetta var meira að segja power clean og jark og splitt snörun, þar sem Jón hefur verið eitthvað skrýtinn í hnénu síðustu daga.
Svo mætti 21 árs gamall frændi hans Jónsa á sína fyrstu æfingu (Spurning hvort það hafa hjálpað Jónsa) og líst mönnum bara vel á strákinn.
Einnig mætti Gunnar Freyr títtnefndur "Master" og sýndi hann áhuga á því að mæta á æfingar.
Ég, Ármann, mætti svo á mína fyrstu æfingu í langan tíma eftir að hafa farið í aðgerð á hnjám í Nóvember og gekk bara bærilega en tölurnar verða að bíða um sinn.

mánudagur, janúar 10, 2005

Lyftingamaður Ársins

Í hófi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Samtaka íþróttafréttamanna á Grand Hóteli Reykjavík þann 29. desember afhenti ÍSÍ viðurkenningar til 55 íþróttamanna í þrjátíu greinum sem eru innan vébanda ÍSÍ.
Í Ólympískum Lyftingum var Gísli Kristjánsson valin Lyftingamaður Ársins fyrir árangur sinn á árinu en hann keppti á Copenhagen Cup og lyfti þar 150,5 kg. í Snörun og er það Íslandsmet og 175 kg. í Jafnhöttun, samtals 325 kg.
Gísli var einnig valinn Lyftingamaður Ármanns og óskar stjórn Lyftingadeildar Ármanns honum hjartanlega til hamingju með árangurinn á liðnu ári.

laugardagur, janúar 08, 2005

Ný síða.

Þessi síða er sett upp til að segja frá því sem er að gerast í Ólympískum Lyftingum hér á landi.
Ég kem til með að segja nýjustu fréttir hér og mun seinna meir setja inn ferðasögur og myndir.