laugardagur, apríl 29, 2006

Thor Cup

Nú styttist óðfluga í Thor Cup sem verður haldið í Vetrargarðinum í Smáralind Laugardaginn 13. Maí næstkomandi.

Þetta mót er með öðruvísi sniði en vanalega og verður gaman að sjá hvernig þetta muni koma út.
Það er Mita Overvliet sem heldur þetta mót og bauð hún fimm þjóðum að taka þátt en það eru: Ísland, Noregur, Danmörk, Svíþjóð og Finnland.

Það sem gerir þetta mót svo sérstakt er það að í hverju liði eru 3 keppendur og má samanlögð líkamsþyngd þeirra ekki vera meiri en 280 kg.
Þetta gerir það að verkum að við fáum að sjá einn "léttvigtamann", einn "millivigtamann" og einn "þungavigtamann" frá hverju landi.
Reglurnar eru þannig að fimm léttustu keppendurnir byrja á snörun og síðan fimm "millivigtarmennirnir" og seinast "þungavigtarmennirnir" og þegar þessu er lokið að þá hefst jafnhöttunin með sömu aðferð.
Efstu þrjár snörurnar hjá hverju liði eru teknar saman og einnig jafnhattannirnar og það lið sem hefur mestu samanlögðu þyngdina vinnur.
Þetta hefur ekki verið gert áður og verður mjög gaman að sjá hvernig þetta tekst til.

Mótið eins og áður hefur komið fram, verður í Vetrargarðinum í Smáralind þann 13. maí og verður það sýnt beint á RÚV og hefst það kl. 15:30. Ég hvet sem flesta til að mæta og styðja okkar menn en fyrir þá sem ekki komast að endilega horfið á þetta stórskemmtilega mót sem framundan er í sjónvarpinu.

Ármann Dan