fimmtudagur, maí 26, 2005

Svíþjóðarmeistaramót Unglinga

Daganna 21-22 maí var haldið Svíþjóðarmeistaramót 16 ára og yngri.

Tveir keppendur stóðu upp úr og er greinilegt að Svíar ætla sér stóra hluti í framtíðinni og er mikill uppgangur í Íþróttinni í Svíþjóð.

Það var Jimmy Källgren (1989) sem steig fyrstur á stokk og keppti hann í 56 kg flokki og setti þar Svíþjóðarmet drengja og unglinga í snörun, jafnhöttun og samanlögðu með 73 kg í snörun, 92 kg í jafnhöttun og 165 kg í samanlögðu.

Svo var það í +94 kg flokki þar sem að Ragnar Öhman setti drengjamet í snörun, jafnhöttun og samanlögðu með 115 kg í snörun, 150 kg í jafnhöttun og 265 kg í samanlögðu.

Hægt er að sjá úrslit mótsins með því að smella hér.


Ragnar Öhman jafnhattar 140 kg á EM unglinga 2004

miðvikudagur, maí 25, 2005

Heimsmeistaramót unglinga í lyftingum III

105 kg flokkur.
Igor Lukin (Rússland) vann 105 kg flokkinn með 180 kg í snörun og 215 kg í jafnhöttun, samtals 395 kg.
Aleh Loban (Hvíta-Rússland) hafnaði í öðru sæti með 175 kg í snörun og 206 kg í jafnhöttun, samtals 381 kg og samlandi hans
Valery Sizianok hafnaði í þriðja sæti með 178 kg í snörun og 202 kg í jafnhöttun, samtals 380 kg.

+105 kg flokkur.
Dimitris Papageridis (Grikkland) var efstur eftir snörunina með 182 kg en David Kadanets (Rússland) var annar með 181 kg.
Papageridis jafnhattaði 211 kg í sinni fyrstu tilraun og 215 kg í annarri sem að nægði honum til sigurs, samtals 397 kg.
Kadanets lyfti fyrst 210 kg og náði ekki að "jerka" 215 kg í sinni annarri tilraun og rann síðan út á tíma í sinni þriðju
tilraun með 218 kg, samtals 391 kg. Í þriðja sæti var svo Tzetvetan Dimitrov (Búlgaría) sem snaraði 170 kg og jafnhattaði 206 kg.


Ármann Dan

þriðjudagur, maí 24, 2005

Heimsmeistaramót unglinga í lyftingum II

77 kg flokkur.
Taner Sagir (Tyrkland) kom sá og sigraði í sínum flokki en sá sem komst næstur honum var Kínverjinn Lu Changliang.
Lu snaraði 152 kg í fyrstu tilraun og Sagir svaraði þá með 156 kg, Lu fór þá í 158 kg en Sagir lyfti 160 kg.
Í þriðju og síðustu tilraun lyfti Lu í 161 kg en Sagir jafnaði Lu með 161 kg en þar sem hann var léttari þá
hafði hann forustu.
Í jafnhöttun opnaði Lu á 182 kg og fór síðan í 189 kg en Sagir fór í 190 og lét það nægja. Í þriðja sæti var svo
Hvít-Rússinn Mikalai Charniak með 151 kg í snörun og 182 kg í jafnhendingu.


85 kg flokkur.
Ilya Ilin (Kazakhstan) náði stórkostlegum árangri í sínum flokki og setti heimsmet unglinga í jafnhendingu 206 kg.
Það var hinsvegar Vadzim Straltsuov (Hvíta-Rússland) sem lyfti mest í snörun en það voru 168 kg sem fuku upp hjá honum en
Ilya Ilin lyfti einnig 168 en var þyngri og því annar í snörun en sá þriðji var Mohamed Eshtiwi (Lybia).
Í jafnhöttun byrjaði Ilin á 197 kg og fór svo í 202 og endaði á heimsmeti unglinga 206 kg í hans þriðju tilraun og tryggði
það honum gullið.
Roman Khamatchine (Rússland) reyndi við sömu þyngd en hafði hana ekki upp og endaði þriðji í samanlögðu.
Straltsuov lyfti 195 kg í jafnhöttun og nægði það honum í annað sætið.
Ekki nóg með það að Ilin hafi sett heimsmet þarna heldur var hann einnig yngstur keppanda í þessum flokki og er vert að
muna eftir honum þegar kemur að Ólympíuleikunum í Peking 2008.

94 kg flokkur.
Í þessum flokki stóð baráttan milli tveggja manna og voru það Andrey Demanov (Rússland) og Arsen Kasabiev (Georgia).
Í snörununni var það Arsen Kasabiev sem byrjaði á 160 kg en Demanov svaraði með 161 kg, fór þá Kasabiev í 165 kg og Demanov
fylgdi á eftir með 166 kg. Í þriðju tilraun fór Kasabiev í 167 kg en Demanov sem var þyngri fór þá upp í 168 kg.
Roman Russyanovskiy (Kazakhstan) náði þriðja sætinu af Eduardo Guadamud (Ecuador) með því að jafna lyftuna hans 162 kg en
var léttari að líkamsþyngd.
Í jafnhöttun byrjaði Kasabiev á 203 kg og Demanov ætlaði að svara með 204 en náði ekki að "Jerka" því og mistókst einnig
í seinni tilrauninni og endaði því í öðru sæti. Kasabiev lyfti 208 kg og bað síðan um 217 kg
en náði ekki að standa upp með hana en hafði unnið gullið engu að síður.
Í þriðja sæti var svo Russyanovskiy.

Ármann Dan

föstudagur, maí 20, 2005

Heimsmeistaramót unglinga í lyftingum.

Heimsmeistaramót unglinga fer fram í Busan í Kóreu og hófst það 17. maí og stendur til 24. maí. Þetta er fyrsta stórmótið
þar sem nýju 1 kíló reglunni er beitt.

56 kg flokkur.
Cen Biao (Kína) snaraði 120 kg og var þá í fjórða sæti en gekk betur í jafnhöttun og lyfti þar 156 kg, samtals 276 kg
og nægði það honum til sigurs.
Hoanganh Tuan (Víetnam) var efstur eftir snörunina þegar hann snaraði 123 kg en honum gekk ekki jafnvel í jafnhöttun og
lyfti þar 153 kg, samtals 276 kg og þó að hann og Cen Biao hefðu lyft sömu heildarþyngdinni þá var Tuan þyngri og endaði
því í öðru sæti.
Heimamaðurinn Lee John-Hoon (Kórea) var í þriðja sæti eftir snörunina með 121 kg og hélt þessu sæti í gegnum keppnina
þar sem hann jafnhattaði 151 kg, samtals 272 kg.

Þarna sést greinilega hvað þessi nýja regla gerir mótin mun skemmtilegri þar sem að fimm efstu menn í snörun lyfta: 123, 122, 121, 120 og 119 kg!


62 kg flokkur.
Jin Jiantao (Kína) byrjaði í snörun eftir að hinir voru hættir en það tók hann þrjár tilraunir að ná byrjunarþyngdinni upp
sem var 128 kg. Honum gekk betur í jafnhöttun og náði þar 150 kg, samtals 278 kg sem tryggði honum gullið.
So Ho-Cheoi (Kórea) sem var í áttunda sæti eftir snörunina kom heldur betur á óvart þegar að hann jafnhenti 157 kg sem
tryggði honum annað sætið.
Katsuhiko Uechi (Japan) sem var einnig neðarlega eftir snörunina með 115 kg, náði einnig góðri jafnhendingu 157 kg
og tryggði það honum þriðja sætið með 273 kg í samanlögðu.

69 kg flokkur.
Yao Yuewei (Kína) var efstur eftir snörunina með 151 kg, annar var Tyrkinn Mete Binay með 150 kg og sá þriðji var
heimamaðurinn Sa Jae-Hyuk með 145 kg.
Þegar komið var í jafnhöttun þá byrjaði Yao með 165 kg en missti 170 tvisvar og var því með 301 kg samanlagt sem færði honum
bronsið. Binay byrjaði á að lyfta 170 kg og svo 173 kg en náði ekki 175 kg í þriðju tilraun og var því með 303 kg samanlagt
sem tryggði honum silfrið. Sa Jae-Hyuk byrjaði á 172 kg og fór svo í 179 kg til þess að tryggja sér gullið og náði því.
Hann bað svo um 188 í sinni þriðju tilraun til þess að setja nýtt heimsmet í jafnhendingu unglinga en eftir að hafa "Klínað"
það örugglega þá náði hann ekki að "jarka" því.

Ármann Dan

föstudagur, maí 13, 2005

Æfingarblogg

Á æfingu í gær kom gestur til okkar alla leið frá Danmörku en það var hinn "Gamli" lyftingamaður Birgir Eiríksson.
Biggi sem er mættur hingað á klakann í helgarferð gat ekki annað en mætt á æfingu til okkar og tekið á lóðunum.
Biggi sem á best 130 kg í snörun og 150 kg í jafnhöttun í gamla 91 kg flokki, snaraði 100 kg og jafnhattaði 120 kg á æfingunni í gær (94 kg sjálfur)og verður það að teljast helv... gott fyrir mann sem hefur ekki æft lyftingar í mörg ár.
Biggi er að vísu að æfa í tækjasal þarna úti en ég var nú að hvetja hann til að finna sér lyftingasal og fara að æfa greinarnar aftur því að hann hefur greinilega litlu gleymt.
Biggi kom og hitti okkur þegar við vorum á Copenhagen Weightlifting Cup í janúar fyrr á þessu ári og er aldrei að vita nema að hann verði fastur gestur þarna með okkur í framtíðinni.

Ármann Dan

sunnudagur, maí 08, 2005

Smáþjóðarleikarnir á Möltu

Laugardaginn 30. apríl síðastliðinn voru haldnir Smáþjóðaleikar í lyftingum á Möltu og samfara því var haldið mót í minningu Charles Mifsud sem var formaður Lyftingasambands Möltu og lést í desember síðastliðinn.
Úrslit mótsins er hægt að nálgast hér.

fimmtudagur, maí 05, 2005

1 kg. reglan tekin í gildi

1 kg. reglan hefur tekið gildi frá og með 1. maí og hefur Alþjóða Lyftingasambandið gefið frá sér samantekt um hvernig þetta virkar.

Þar til nú hefur mátt þyngja lægst um 2.5 kg, nema ef um met var að ræða, þar sem mátti nota 0.5 kg. hækkun. Þá voru einungis taldar með 2.5 kg. hækkanirnar í samanlögðu en ekki þessi aukakíló sem komu inní út af metum.

En nú fyrsta maí má auka þyngdina um 1 kg., hvort sem um keppni eða met er um að ræða og nú eru allar tölur teknar inní samanlagða þyngd, bæði í keppni og í metum.