sunnudagur, janúar 22, 2006

Copenhagen Cup.

Fjórir keppendur frá Íslandi kepptu á Alþjóðlegu móti í Ólympískum lyftingum sem fram fór í Kaupmannahöfn nú um helgina.

Sigurður Einarsson úr F.H. setti þrjú Íslandsmet í 77 kg flokki þegar hann snaraði 93 kg, jafnhenti 121 kg, samanlagt 214 kg, allt Íslandsmet. Sannarlega stórkostlegur árangur hjá þessum unga lyftingamanni.

Guðmundur Sigurðsson úr F.H. féll úr í snörun en jafnhenti 145 kg sem er 10 kg yfir gildandi heimsmeti í 105 kg flokki öldunga 60-65 ára. Sannarlega stórkostlegur árangur hjá þessum reynda lyftingamanni.

Gísli Kristjánsson úr Ármanni féll úr í snörun og hætti keppni.

Einar Marteinsson úr F.H. snaraði 91 kg og féll úr í jafnhöttun í 105 kg flokki.

Úrslit mótsins koma eftir helgi.

Ármann Dan.

föstudagur, janúar 20, 2006

Copenhagen Cup

Nú um helgina verður hið árlega mót Copenhagen Cup og fara fjórir Íslenskir keppendur á þetta mót.
Einn keppandi frá Ármanni og það er Gísli Kristjánsson en þrír keppendur frá FH og eru það Guðmundur Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Einar Marteinsson.
Við munum birta úrslit mótsins hérna á vefnum um leið og þau berast.

Ármann Dan.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Fleiri staðfestingar á Arnold.

Nú er það staðfest að Búlgarinn Velichko Cholakov mun taka þátt á Arnold helginni sem fer fram í mars.
Cholakov sem verður 24 ára á þessu ári, náði stórgóðum árangri á Ólympíuleikum 2004 þegar hann vann til bronsverðlauna í +105 kg flokki með 207,5 kg í snörun og 240 kg í jafnhöttun en þetta voru hans fyrstu leikar.
Cholakov varð einnig Evrópumeistari 2004 og ári áður varð hann í öðru sæti á heimsmeistaramótinu sem haldið var í Vancouver.

Það er greinilegt að Arnold ætlar sér að gera þessa helgi að stórviðburði í lyftingaheiminum.

Ármann Dan

sunnudagur, janúar 08, 2006

Arnold 2006

Búið er að staðfesta komu nokkurra þekktra lyftingamanna á Arnold 2006 sýninguna sem fer fram 3-5 mars.
Fremstur í flokki er gullverðlaunahafi frá síðustu ólympíuleikum Georgi Asanidze frá Georgíu og fjórir frá Kína,
gullverðlaunahafarnir frá síðustu Ólympíuleikunum þeir Zhang Guozheng og
Shi Zhiyong sem varð einnig heimsmeistari í 69 kg flokki fyrr á þessu ári. Einnig silfurverðlaunahafarnir frá sömu leikum
þeir Wu Meijin og Le Maosheng.

Þeir sem vilja kynna sér þennan viðburð betur en bent á að fara á http://www.arnoldsportsfestival.com/

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Gísli Kristjánsson.

Lyftingamaðurinn Gísli Kristjánsson var valinn lyftingamaður ársins 2005 af Lyftingasambandi Íslands og fékk hann verðlaunin afhent á þriðjudaginn þegar ÍSÍ verðlaunaði alla bestu íþróttamenn sérsambandana og einnig fór fram val á íþróttamanni ársins.

Gísli varð í 2. sæti á Alþjóðlegu móti í Kaupmannahöfn og setti nýtt Íslandsmet í snörun, 155 kg. Einnig varð Gísli Íslandsmeistari í +105 kg flokki.

Við óskum Gísla til hamingju með titilinn.