laugardagur, apríl 21, 2007

Íslandsmeistaramót í Lyftingum 2007.

Íslandsmeistaramótið í Lyftingum 2007 fór fram í Ármannsheimilinu í dag og voru 7 keppendur mættir til leiks. Einn lyfti í -17 ára flokki en tveir í -20 ára flokki og fjórir í karlaflokki. Keppendur stóðu sig mjög vel og sérstaklega þeir yngstu og verður gamann að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Kristófer Andri Angarsson úr Ármanni keppti í 69kg flokki -20 ára og lyfti hann 50kg í sinni fyrstu tilraun, 55 í annari og 58 í þeirri þriðju í snörun. Í jafnhöttun lyfti hann 70kg í fyrstu tilraun, 77 í annari og svo reyndi hann við nýtt íslandsmet í sinni þriðju tilraun, 81 kg en fékk lyftuna ekki dæmda gilda. Samanlagt lyfti hann 135 kg og var þetta mjög góður árangur hjá honum og var hann að keppa á sínu fyrsta móti.

Agnar Snorrason úr Ármanni keppti í 77 kg flokki í -17 ára og setti hann þar íslandsmet í snörun í sinni annari lyftu og var það 70 kg. Í þriðju tilraun bætti hann síðan metið enn meira þegar hann snaraði 76 kg og var það jafnframt Íslandsmet í 77 kg flokki í -20 ára. Agnar var aldeilis ekki hættur og byrjaði á nýju Íslandsmeti í jafnhöttun þegar hann lyfti 90 kg og var hann þá einnig búinn að setja nýtt Íslandsmet í samanlögðu. Agnar hélt áfram að setja met í -17 ára flokki og lyfti í sinni annari tilraun 95kg og bætti þar með líka metið í samanlögðu og svo endaði hann mótið með því að jafnhatta 100 kg og fékk því 176 kg í samanlögðu og að sjálfsögðu bæði ný met. Hreint stórkostlegur árangur hjá þessum unga dreng á sínu fyrsta móti.

Magnús Valgeir Gíslason úr Breiðablik keppti í 77 kg flokki -20 ára og lyfti hann 55kg í fyrstu tilraun, 60kg í annari og 65 kg í í þriðju tilraun í snörun. Í jafnhöttun lyfti hann 70kg í fyrstu tilraun, 80 í annari og 90 í þeirri þriðju. Samanlagt 155 kg og var hann einnig að keppa á sínu fyrsta móti.

Tveir keppendur voru í 85 kg flokki og voru það Ármenningarnir Jón Pétur Jóelsson og Sigurður Einarsson. Sigurður sigraði flokkinn og lyfti hann 90kg í fyrstu tilraun, 95 í annari en mistókst við 100kg í þriðju tilraun sinni í snörun. Í jafnhöttun lyfti hann 120kg í fyrstu tilraun, 125 kg í annari og 130 kg í þriðju tilraun. Samanlagt lyfti hann 225 kg.

Jón Pétur var í öðru sæti og lyfti hann 85kg í fyrstu tilraun, en mistókst í annari tilraun með 90kg og einnig í þriðju tilraun sinni með 92kg. Í jafnhöttun byrjaði hann á 115kg en mistókst með 122 í annari og þriðju tilraun. Samanlagt lyfti hann 200 kg.

Í 94 kg flokki var mættur til leiks gamla brýnið Guðmundur Sigurðsson úr Ármanni og lyfti hann 90 kg í sinni fyrstu tilraun, 95kg í annari en mistókst í þriðju tilraun með 97kg. Í jafnhöttun lyfti hann 115kg í sinni fyrstu tilraun, 125 í annari en mistókst í þeirri þriðju með 130. Samanlagt lyfti hann 220 kg.

Í 105 kg flokki lyfti Ármenningurinn Snorri Agnarsson, faðir Agnars sem keppti í 77 kg flokki. Snorri lyfti 75kg í sinni fyrstu tilraun, í annari 80kg en mistókst í þeirri þriðju með 85kg. Í jafnhöttun lyfti hann 105kg í fyrstu tilraun og 110 í annari en hætti þá keppni. Samanlagt lyfti hann 190 kg.

Þetta var mjög gott mót og gaman var að sjá að keppendur voru á öllum aldri, frá 17 ára og upp í 61 árs.

Lyftingasambandið þakkar bæði keppendum og áhorfendum fyrir gott mót.