miðvikudagur, apríl 04, 2007

Þrenning

Já það eru nokkrar fréttir sem við höfum að færa ykkur og best er að byrja að segja frá því að Íslandsmeistaramótið í lyftingum verður haldið laugardaginn 21. apríl í lyftingasal Ármenninga. Nánari tímasetning verður auglýst síðar.

Í erlendum fréttum er helst það að frétta að Georgía ætlar ekki að senda lið á evrópumótið sem hefst þann 14. apríl í Frakklandi. Ástæðan fyrir þessu að sögn Grikurovi landsliðsþjálfara þeirra Georgíumanna er sú að þeir hafa aðeins fimm lyftingamenn til að keppa og fjórir þeirra eiga við smá meiðsli að stríða. Arsen Kasabiev þeirra helsta stjarna er að jafna sig af meiðslum og ætlar hann að stefna á að keppa á HM seinna í ár.

Ilya Ilin (Kazakhstan) gullverðlaunahafi á HM í fyrra í 94 kg flokki mun ekki keppa á Junior né Senior Asíuleikunum í ár þar sem hann er að einbeita sér að HM seinna í ár og er það gert vegna þess að HM er sá viðburður þar sem að hann stefnir á að ná Ólympíulágmörkum fyrir Bejing á næsta ári.