þriðjudagur, desember 05, 2006

Asíuleikarnir

Nú eru fyrstu dagar Asíuleikanna búnir og eru Kínverjar að sópa inn verðlaunum.

Li Hongli sigurvegarinn í 77kg flokki.

Í 56 kg flokki varð heimsmeistarinn Li Zheng í fyrsta sæti með 130kg í snörun og 157kg í jafnhöttun, samtals 287kg. Í öðru sæti var Víetnaminn Hoang Anh Tuan með 128kg í snörun og 157 kg í jafnhöttun, samtals 285kg. Í þriðja sæti varð svo Lee Jong Hoon frá Kóreu með 277kg í samanlögðu.

Í 58 kg flokki kvenna var það hin kínverska Chen Yanqing sem stal senunni þegar hún setti nýtt heimsmet með því að snara 111kg en var ekki hætt og lyfti 140 kg í jafnhöttun sem var einnig nýtt heimsmet sem og í samanlögðu 251kg.

Í 62 kg flokki karla hélt sigurganga kínverja áfram þegar Qui Le snaraði 142kg og jafnhattaði 175kg, samtals 317kg. Ekki nóg með það heldur fengu kínverjar einnig silfurverðlaun þegar Mao Jia snaraði 140kg og jafnhattaði einnig 175kg, samtals 315kg. Yong Su frá Kóreu varð í þriðja sæti með 135kg í snörun og 165kg í jafnhöttun, samtals 300kg.

Endurtekkning varð á þessu í 69kg flokki þegar að Zhang Guozheng vann flokkinn með 152kg í snörun og 184kg í jafnhöttun, samtals 336kg. Í öðru sæti var svo samlandi hans Shi Zhiyong sem snaraði 155kg og jafnhattaði 180kg, samtals 355kg. Í þriðja sæti varð svo Kim Sun Bae frá Kóreu með 307kg í samanlögðu.

Það var síðan í 63kg flokki kvenna að sigurganga Kínverja endaði þegar að Pawina Thongsuk frá Tælandi sigraði sinn flokk með 110kg í snörun og 142kg í jafnhöttun sem var heimsmet, samtals 252kg. Í öðru sæti varð svo hin kínverska Ouyang Xiaofang sem snaraði 115kg og jafnhattaði 132kg, samtals 247kg. Í þriðja sæti varð svo Faw Thaw Yae frá Myamar með 227kg í samanlögðu.

Í 77 kg flokki karla varð það Li Hongli frá kína sem vann með 165kg í snörun og 196kg í jafnhöttun, samtals 361kg. Í öðru sæti varð svo Kóreubúinn Lee Jeong Jae með 341 kg í samanlögðu og í þriðja sæti varð svo Harem Ali frá Írak einnig með 341kg í samanlögðu en var þyngri.

Í 69 kg flokki kvenna var það hin kínverska Liu Haixa sem fór með yfirburða sigur af hólmi þegar hún snaraði 115kg og jafnhattaði 150kg, samtals 265kg. Pan Yar Thet frá Myamar varð í öðru sæti með 235kg í samanlögðu og í þriðja sæti varð hin kóreska Kim Mi Kyung sem lyfti samtals 223kg.