fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Ólympíuleikarnir í Moskvu 1980

Ólympíuleikarnir í Moskvu 1980 voru seinustu leikarnir sem Íslendingar sendu lyftingamenn til keppni.

Sjö lyftingamenn náðu lágmörkunum fyrir þessa leika en sökum fjárskorts voru aðeins þrír sendir.
Þegar til Moskvu var komið, veiktust allir lyftingamennirnir í maga og hafði það sín áhrif á árangur þeirra.
Þorsteinn Leifsson keppti í -82,5 kg flokki og snaraði 125 kg en gerði allar lyftur í jafnhendingu ógildar og var því úr leik.
Guðmundur Helgason keppti í -90 kg flokki og snaraði hann 135 kg og varð í 14. sæti. Í jafnhendingu lyfti hann 160 en mistókst tvisvar við 165 kg og lyfti því samanlagt 295 kg og endaði í 13. sæti. Guðmundur var vinsæll meðal áhorfenda og var klappað lof í lófa að lokinni keppninni.
Birgir Þór Borgþórsson keppti í -100 kg flokki og snaraði hann 147,5 kg og varð í 13. sæti. Í jafnhöttun lyfti Birgir 182,5 kg og varð í 11. sæti og lyfti samtals 330 kg og endaði í 12. sæti.

Ármann Dan
Allar upplýsingar hér fyrir ofan eru teknar úr bókinni, Íslendingar á Ólympíuleikum eftir Gísla Halldórsson, sem að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands gaf út árið 2003.