laugardagur, mars 05, 2005

Hossein Rezazadeh Lyftingamaður ársins.

Nú er það loksins orðið staðfest að Íraninn mikli, Hossein Rezazadeh, sé "Lyftingamaður ársins 2004". Þetta var gert opinbert á 100 ára afmælishátíð Alþjóða Lyftingasambandsins á fimmtudaginn í Istanbul í Tyrklandi.

Hinn +105 kg Heims- og Ólympíumeistari var einnig á topp 12 listanum yfir bestu lyftingamenn á þessum 100 árum með ekki ómerkari mönnum en Pyros Dimas frá Grikklandi, Naim Suleymanoglu og Halil Mutlu frá Tyrklandi og Rússanum Vasily Alexiev.

Hossein Rezazadeh stóð sig frábærlega á Ólympíuleikunum í sumar þar sem hann lyfti 210 kg í snörun og setti heimsmet í jafnhendingu í sinni lokatilraun með 263.5 kg sem var bæting frá hans gamla meti um 0,5 kg.
Hann vann sinn flokk með miklum yfirburðum þar sem hann var með samanlagðan árangur upp á 472,5 kg en Lettinn Viktors Scerbatihs sem vann silfur var með 455 kg og Búlgarinn Velichko Cholakov sem hlaut brons var með 447,5 kg.
Með þessum árangri vann hann sitt annað Ólympíugull og segist hann ætla að bæta því þriðja við á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.

Þess má geta að Rezazadeh hefur einnig orðið Heimsmeistari tvisvar sinnum og á Heimsmetið í snörun 213 kg, jafnhöttun 263,5 og samanlögðu 472,5.

Ármann Dan